Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 29/2008

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 22. janúar 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 29/2008.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 10. nóvember 2008, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 3. nóvember 2008 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 21. október 2008. Fallist var á umsókn kæranda en réttur hans til atvinnuleysisbóta var felldur niður í 40 daga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dagsettu 20. nóvember 2008. Kærandi óskar þess að hin kærða ákvörðun verði tekin til endurskoðunar. Að mati Vinnumálastofnunar ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Kærandi starfaði sem bifreiðastjóri hjá X ehf. frá 22. september 2008 til 17. október 2008. Með umsókn, dags. 21. október 2008, sótti kærandi um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun. Fram kom í umsókn kæranda að hann hafi sagt upp störfum vegna ágreinings við yfirmann sinn. Samkvæmt vinnuveitendavottorði, dags. 22. október 2008, sagði kærandi sjálfur upp störfum.

Á meðal gagna málsins er rafpóstur sem kærandi sendi Vinnumálastofnun annað hvort 21. eða 22. október 2008. Þar kemur meðal annars fram að kærandi hafi sagt upp störfum vegna ágreinings við eiganda X ehf. enda hafi framkoma hans við sig verið óviðunandi. Eigandinn hafi valdið kæranda andlegri vanlíðan og kvíða sem hann gat ekki sætt sig við. Jafnframt taldi kærandi að honum hefði verið sagt upp störfum ef hann hefði unnið þar lengur.

Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 10. nóvember 2008, var kæranda tilkynnt að stofnunin hefði á fundi sínum 3. nóvember 2008 fjallað um umsókn hans um atvinnuleysisbætur og hún hefði verið samþykkt en með vísan til starfsloka hans væri réttur hans til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í 40 daga, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknarinnar. Fram kom í þessu bréfi stofnunarinnar að skýringar kæranda á starfslokunum hefðu legið fyrir áður en hin kærða ákvörðun var tekin og að mati stofnunarinnar væru skýringar kæranda á ástæðum uppsagnarinnar ekki gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Af þessum sökum hefði sú ákvörðun verið tekin að fella bótarétt hans niður í 40 daga.

Kæran barst úrskurðarnefndinni þann 20. nóvember 2008 og kemur þar eingöngu fram að kærandi „óski eftir því að mál [sín] vegna atvinnuleysis verði tekin til skoðunar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga.“

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. og mótteknu 22. desember 2008, kom stofnunin sinni afstöðu í málinu á framfæri við úrskurðarnefndina. Þar kemur fram að hin kærða ákvörðun hafi byggst á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna. Að mati stofnunarinnar hafi ekki verið gildar ástæður fyrir uppsögn kæranda. Kærandi hafi sagt upp störfum hjá X ehf. vegna ágreinings við eiganda fyrirtækisins. Umsókn hans hafi verið samþykkt en þar sem kærandi sagði sjálfur upp störfum hafi bótaréttur hans verið felldur niður í 40 daga, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar hans um atvinnuleysisbætur.

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar til kæranda, dags. 29. desember 2008, var kæranda gefinn kostur á að koma frekari gögnum og andmælum að í málinu fyrir 12. janúar 2009. Engin svör eða viðbrögð bárust frá kæranda við bréfi úrskurðarnefndarinnar.

 

2.

Niðurstaða

Fyrsta málsgrein 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar er 1. mgr. 54. gr. laganna skýrð nánar og það áréttað að eitt af markmiðum vinnumarkaðskerfisins sé að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Með hliðsjón af því er ekki gefinn kostur á að fólk segi upp starfi sínu til að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að sérstakar ástæður liggi að baki uppsögninni í tilvikum þegar annað starf er ekki í boði. Jafnframt er tekið fram að Vinnumálastofnun beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Að lokum er í greinargerðinni bent á að ákvörðun um biðtíma sé íþyngjandi og liggja þurfi fyrir hvaða ástæður séu raunverulega að baki því að launamaður segi upp starfi sínu án þess að hafa annað starf í hendi enda sé oft um að ræða viðkvæm mál í slíkum tilvikum.

Fallast má á að almennt eru líkindi fyrir því að atvinnuleitandi sem segir starfi sínu upp verði settur á 40 daga bið í samræmi við fyrri málslið 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þessi almennu líkindi breyta því ekki að fyrri málsliður 1. mgr. 54. laga um atvinnuleysistryggingar felur í sér matskennda reglu sem eingöngu ætti að beitti að vel athuguðu máli. Hér má benda á álit umboðsmanns Alþingis frá 4. júní 2004 í máli nr. 3960/2003 en þar kemur meðal annars fram að við beitingu sambærilegrar reglu í gildistíð eldri laga hafi úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta borið skylda til að meta sérstaklega hvað teldust gildar ástæður fyrir uppsögn.

Eins og að framan var rakið sótti kærandi um atvinnuleysisbætur 21. október 2008. Bæði í umsókn hans og í rafpósti hans til Vinnumálastofnunar kom fram að hann hafi sagt upp starfinu vegna samskiptaörðugleika við vinnuveitanda. Samkvæmt vinnuveitendavottorði, dags. 22. október 2008, sagði kærandi sjálfur upp starfi en þar er ekki getið um ástæður uppsagnarinnar. Engar frekari upplýsingar um atvik máls lágu fyrir áður en hin kærða ákvörðun var tekin 3. nóvember 2008 en venja er í málum af þessu tagi að atvinnuleitanda sé formlega gefinn kostur á því að andmæla fyrirhugaðri ákvörðun um 40 daga biðtíma. Sú ályktun er því nærtæk að Vinnumálastofnun hafi talið að málið væri nægjanlega rannsakað, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og engin þörf væri á að veita kæranda andmælarétt enda hafi afstaða hans í málinu legið fyrir, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga.

Eins og þetta mál er vaxið verður að telja að Vinnumálastofnun hafi borið að rannsaka málið betur áður en hin kærða ákvörðun var tekin og tryggja að kærandi hefði tækifæri til að skýra sitt mál nánar. Full ástæða var fyrir Vinnumálastofnun að kanna nánar málsatvik með samtölum við kæranda og vinnuveitanda hans. Þetta var nauðsynlegt vegna þess að ekki var útilokað að gild ástæða hafi verið fyrir uppsögninni. Þó að sönnun um samskipti launþega og vinnuveitanda sé alltaf verulegum erfiðleikum háð þá leysir það ekki Vinnumálastofnun undan þeirri skyldu að rannsaka mál með fullnægjandi hætti. Með hliðsjón af þessu verður sá þáttur ákvörðunar Vinnumálastofnunar, að fresta bótagreiðslum í 40 daga, felldur úr gildi.

Þessi niðurstaða felur ekki í sér að kærandi eigi rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta í 40 daga frá móttökudegi umsóknar um atvinnuleysisbætur heldur eingöngu að þessi þáttur hinnar kærðu ákvörðunar sé felldur úr gildi. Vinnumálastofnun skal taka þennan þátt málsins til löglegrar meðferðar.

 

Úr­skurðar­orð

Sá þáttur ákvörðunar Vinnumálastofnunar frá 3. nóvember 2008 um að fella niður bótarétt A í 40 daga er felldur úr gildi. Vinnumálastofnun skal taka þennan þátt málsins til löglegrar meðferðar.

 

Brynhildur Georgsdóttir for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum